Hæfing

HæfingHæfing er alhliða starfs- og félagsþjálfun utan heimilis sem miðar að því að auka hæfni fatlaðs fólks með mikið skerta starfsgetu til starfa og þátttöku í daglegu lífi. Markmiðið er að gera því kleift að sækja vinnu á almennum vinnumarkaði eða verndaða vinnu. Í reynd er hæfing þó einatt viðvarandi úrræði sem felur í sér dagleg verkefni utan heimilis og þar með einnig félagsskap og tilbreytingu.

Hæfing fer einkum fram í formi léttra vinnuverkefna, ADL þjálfunar (athafnir daglegs lífs) og félagsþjálfunar. Ekki eru að jafnaði greidd laun í hæfingu en eðlilegt er að þegar verkefni skila arði sé hann greiddur út til þeirra sem vinna að þeim.

Á höfuðborgarsvæðinu er starfræktur um tugur hæfingarstöðva þar sem um 170 manns njóta þjálfunar. Flestir dvelja þar 4-6 klst. á dag. Til loka árs 2010 var starfsemin einkum á höndum ríkisins en síðan þá í umsjá sveitarfélaganna sem þær eru staðsettar í og sjálfseignarstofnana að hluta. Gert er ráð fyrir að þessir aðilar, þeirra á meðal Mosfellsbær, hafi með sér samvinnu um þau rými sem þar er að finna, sem og um faglegt eftirlit.